Helgina 19. – 21.júní hittist skíðagöngufólk í Kerlingarfjöllum í sumar til að njóta þess að skíða á milli jöklanna. Öll gisting á svæðinu, morgunmatur, kvöldverður, fjöllin fögru og hverirnir eru okkar. Þeir Einar Ólafsson og Óskar Jakobsson munu ekki bara halda uppi fjörinu heldur líka lauma að þátttakendum ýmsum leiðbeiningum um tækni og búnað. Mest verður þó reynt að stóla upp á að hafa gaman enda er búið að ráða Eyfa Kerlingarfjalla-tónlistargúru í verkefnið.
Dagskrá:
Dagskráin hefst kl. 20:00 föstudaginn 19. júní með móttöku og kvöldverði. Síðar um kvöldið verður pubquiz og svo er farin sólsetursferð um nágrennið, undir styrkri leiðsögn Jónasar Valdimarssonar og Valdimars Flygenring auk þeirra Einars og Óskars. Laugardaginn 20. júní verður boðið upp á skemmtilega og létta skíðaskotfimikeppni með ýmsu ívafi a la surpræs Einars og Óskars. Í beinu framhaldi verður farin lengri skíðaganga þar sem gengið er á milli jöklanna fögru og landið skoðað. Í lok ferðarinnar er tekið á móti þátttakendum á "apres-ski" barnum, þar sem fram verða boðnar veitingar. Á sunnudeginum er sameiginleg ganga um áhugaverð svæði í Kerlingarfjöllum. Allir ættu því að geta fundið skíðagleðina í þessu magnaða umhverfi. Troðnar brautir verða alla dagana með Heiðmerkursnjósleðanum.
Svefnaðstaða er takmörkuð í Kerlingarfjöllum og mun því gilda hér - "fyrstir koma fyrstir fá". Allir sem kaupa svefnaðstöðu í skálum, kaupa 2 nætur, 2 morgunverði og 2 kvöldverði ásamt þátttökugjaldi í alla viðburði helgarinnar. Verðlagningu er stillt í hóf en hún er á bilinu 31 – 67 þúsund eftir því hvort gist er í svefnpokaplássi, nípu ( uppábúin rúm ) eða nýju byggingunni, Öldu. Þeir sem koma á húsbílum eða með felli- eða tjaldhýsi greiða 31 þús. fyrir gistiaðstöðu á tjaldstæði ( 2 nætur ) og þátttöku í öllum dagskrárliðum. Af heildarverði er mótsgjaldið / þátttökugjaldið 25.000 kr.
Vinsældir skíðagöngunnar hefur aukist hratt á allra síðustu árum og er þessi helgi ekki síst hugsuð til að bera áfram út hróður íþróttarinnar og gefa sem flestum tækifæri á að taka þátt á sínum forsendum.
Hvar í heiminum á skíðagöngufólk möguleika á að skíða framhjá bullandi hverum, finna hveralyktina í vitum sér og njóta samtímis litadýrðarinnar allt um kring? - Einn af örfáum slíkum stöðum í heiminum, ef ekki sá eini, er vafalítið Kerlingarfjöll, þar sem við ætlum að njóta ógleymanlegra samverustunda helgina 19. - 21. júní.
Tugþúsundir Íslendinga eiga góðar minningar úr Kerlingarfjöllum. Undanfarin 2 ár höfum við rifjað upp kvöldvöku að hætti "Kerlingarfjallamanna“ sem hinn landsþekkti tónlistarmaður og "Kerlingarfjallamaður“, Eyfi hefur stjórnað af sinni alkunnu snilld. Að tilmælum Landlækniembættisins þá flytjum við nú í ár þessa dagskrá út og verðum með brekkusöng og varðeld.
Undirbúningshópurinn á bak við þessa helgi samanstendur af þeim Óskari Jakobssyni, Einari Ólafssyni og Kristni R Sigurðssyni, en þeir hafa það eina markmið að sjá til þess að allir þátttakendur fari hamingjusamir heim eftir vel heppnaða helgi.