top of page

FJALLASKÍÐI Í KERLINGARFJÖLLUM

Fjallaskíðafólk sameinast í Kerlingarfjöllum í sumar til að taka þátt í fjallaskíðamótinu NJÓTA eða ÞJÓTA. Kerlingarfjöllin eru frátekin fyrir okkur dagana 4. - 6. júní. Öll gisting á svæðinu, morgunmatur, kvöldverður, fjöllin fögru og hverirnir eru okkar. Búið er að ráða veislustjóra, brautstjóra, mótstjóra og tónlistarmenn.  

Dagskrá:

Dagskráin hefst kl. 20:00 föstudaginn 4. júní með móttöku og kvöldverði. Síðar um kvöldið verður farin sólsetursferð á Snækoll, undir styrkri leiðsögn bræðranna Örnólfs og Jónasar Valdimarssona. Undanfarin 3 ár höfum við á laugardeginum boðið uppá annars vegar krefjandi keppni fyrir þá sem vilja “þjóta” og hins vegar mun léttari fjallaskíðaferð án tímatöku fyrir þá sem vilja “njóta”.  Hvað við gerum í vor er enn í mótun en ein hugmyndin er að leggja mun meiri áherslu á njóta liðinn með gleði og óvissu að leiðarljósi. Við endamark er tekið á móti þátttakendum á  "apres-ski" barnum, kokteillinn Snækollur kynntur og borinn fram með tilheyrandi meðlæti. Á sunnudeginum er sameiginleg ganga á áhugaverða tinda í Kerlingarfjöllum. Allir ættu því að geta fundið skíðaleið við sitt hæfi, bæði þeir sem vilja þjóta og ekki síður þeir sem vilja njóta.

Svefnaðstaða er takmörkuð í Kerlingarfjöllum og mun því gilda hér - "fyrstir koma fyrstir fá". Allir sem kaupa svefnaðstöðu í skálum, kaupa 2 nætur, 2 morgunverði og 2 kvöldverði ásamt þátttökugjaldi í alla viðburði helgarinnar. Verðlagningu er stillt í hóf en hún er á bilinu 53 – 67 þúsund eftir því hvort gist er í svefnpokaplássi, nípu (uppá búin rúm) eða nýju byggingunni. Þeir sem koma með felli- eða tjaldhýsi greiða 31 þús. fyrir gistiaðstöðu á tjaldstæði (2 nætur) og þátttöku í öllum dagskrárliðum.  Af heildarverði er mótsgjaldið / þátttökugjaldið 25.000 kr.​

Vinsældir fjallaskíðasportsins hafa aukist hratt á allra síðustu árum og er mótið ekki síst hugsað til að bera áfram úr hróður íþróttarinnar og gefa sem flestum tækifæri á að taka þátt á sínum forsendum.

Hvar í heiminum á fjallaskíðafólk möguleika á að skíða framhjá bullandi hverum, finna hveralyktina í vitum sér og njóta samtímis litadýrðarinnar allt um kring? - Einn af örfáum slíkum stöðum í heiminum er vafalítið Kerlingarfjöll, þar sem við ætlum að njóta ógleymanlegra samverustunda helgina 4. - 6. júní.

Tugþúsundir Íslendinga eiga góðar minningar úr Kerlingarfjöllum. Undanfarin 3 ár höfum við rifjað upp kvöldvöku að hætti „Kerlingarfjallamanna“ sem hinn landsþekkti tónlistarmaður og „Kerlingarfjallamaður“, Eyfi hefur stjórna af sinni alkunnu snilld.  

Aðstandendur „Njóta eða þjóta“ hafa eitt markmið, að sjá til þess að allir þátttakendur fari hamingjusamir heim eftir vel heppnaða helgi.

mynd-kerlingafjöll.jpg
bottom of page